Trausti og gítarinn
Trausti Thorberg Óskarsson, er fæddur í Bröttugötu 3, Grjótaþorpi þann 19. nóv. 1927. Hann elst síðan upp á æskuheimili sínu að Bræðraborgarstíg 16. Hann stundaði hefðbundið nám í Barnaskóla Miðbæjar við Tjörnina í Reykjavík. Hann fer snemma að vinna í bakaríi foreldra sinna að Laugavegi 5. Hann fer svo í Iðnskólann sem bakaranemi, þetta var árið 1943. Á þessum árum allt frá 1940 hafið Trausti fengið mikinn áhuga fyrir gítar og hafði m.a. sótt nám hjá Sigurði Briem. En þá hafði Ísland verið hernumið af Bretum og með hernum komu hljóðfæraleikarar, sem léku danstónlist og þar sá Trausti og heyrði í fyrsta skipti leikið á gítar í hljómsveit. Eftir þetta komst ekkert annað að hjá Trausta nema rytma-gítar og fór honum mjög vel fram á hljóðfærið.
Síðan tóku Ameríkanar við og þá komu með þeim stórar hljómsveitir (Big-band) og í þessum hljómsveitum var alltaf gítar. Á þessum árum var Trausti þegar farinn að leika með ýmsum hljóðfæraleikurum, aðallega harmonikkuleikurum, enda mikil eftirspurn eftir liðlegum rytma-gítarleik þar sem á þessum árum var mikið dansað. Þar kom að Trausti komst að sem lærlingur í hljómsveit Þóris Jónssonar á Hótel Borg til að öðlast færni í að leika með blásurum sem þýddi að hann þurfti að leika í tóntegundum, sem hann var alveg ókunnur. Hann naut þá í smá tíma kennslu gítarleikara sem var hér á vegum hersins og hér Jimmy Webster, hann kom Trausta yfir þá erfiðleika sem fylgja því að spila með blásturshljóðfæraleikurum. Trausti hóf að leika með K. K. sextett í sept. 1947. Þá kom í ljós að nótnalestrar kunnátta var í algjöru lágmarki, þar sem hann þurfti að leika raddir á móti saxafón og trompet. Þetta vafðist mikið fyrir Trausta og varð hann að mestu leiti að læra sínar raddir utanað. Þess má líka geta að allan sinn feril sem gítarleikari þessara ára vann Trausti sem rakari á daginn.
Þá kom að því að hann fer til Danmerkur 1948 með sína heitt elskuðu Dóru, sem fór þá á húsmæðraskóla, en Trausti, að vinna á rakarastofu í Kaupmannahöfn. Á þessum tíma í Kaupmannahöfn kynntist hann mörgum hljóðfæraleikurum, t. d. Helga Jacobsen, frábærum gítarleikara og Jørn Grauengåard. Trausti sótti tíma hjá honum þetta sumar og þegar heim kom til Íslands 1949 lék Trausti með allflestum hljóðfæraleikurum sem voru á markaðnum á þessum tíma, þó einna mest með Carli Billich í Góðtemplarahúsinu og á yfir 100 sýningum á "Deleríum Búbónis", leikriti eftir þá bræður Jón Múla of Jónas Árnason.
Það var árið 1946 í nóvember að hingað kom sænskur gítarleikari á klassíska sviðinu, hann lék á tónleikum í Tjarnarbíó og þar kynntist Trausti fyrst í návígi því sem hans hugur hafði leitað, að spila á gítar sem sóló hljóðfæri með gjörólíkum að ferðum, þetta var einskonar bylting fyrir Trausta. Það er svo ðð þegar Eyþór Þorláksson kemur til Íslands haustið 1959, það er ekkert með það að með okkur tekst mikil og einlæg vinátta sem hefur staðið allt til þessa dags. Hann kom mér inn í heim klassíska gítarsins og hóf strax að leiðbeina mér, lét mig fá nótur, lánaði mér plötur; sem sagt kom mér varanlega á sporið. Eftir þetta lékum við saman ásamt eiginkonu hans Sigurbjörgu Sveinsdóttur (Didda Sveins) sem söng með tríói í Þjóðleikhúskjallaranum og síðar á Röðli.
Þá kom að því að hann hvatti mig eindregið til að fara í tónlistarskólann. Ég var þá um sextugt, orðinn gráhærður og taldi það fráleitt að ég gæti farið í svo strangt nám, en Eyþór hvatti mig mjög til þess. Meiningin var fyrst og fremst sú að öðlast haldgóða þekkingu á tónlistarnámi og betri þekkingu á gítarbókmenntum og var ef til vill efni í gítarkennara. Það var ekkert annað en það að ég stundaði þetta nám af einlægum áhuga og lauk námi frá Tónlistarskóla Hafnarfjarðar með tónleikum 21. apríl 1985 og hafði þá með náminu hafið kennslu við Tónlistarskóla Mosfellsbæjar og í framhaldi af því einnig við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar í mörg ár. Án stuðnings Eyþórs hefði ég aldrei komist í gegnum þetta. Hann var kröfuharður kennari, en sanngjarn og er ég honum afar þakklátur fyrir allt það starf.
Nú er ég frjáls til að gera það sem mig hefur alltaf langað til að gera á gítarinn, en nú er það eingöngu fyrir sjálfan mig, mér til ánægju að skrifa fyrir hljóðfærið og heyra þessa ljúfu tóna sem hægt er að fá úr þessu yndislega hljóðfæri.
Á þeim blöðum sem hér fara á eftir, getur að líta íslensk lög, sem á að leika á gítar sem einleiksverk. Tónskáld vor hafa samið þessi fallegu lög við úrvals ljóð, sem hafa orðið vinsæl með þjóðinni. Mörg laganna geta einnig hljómað sjálfstæð án ljóðs, enda oft leikin þannig t. d. á fiðlu, cello eða píanó. Mér fannst kominn tími til að gítarinn væri þar á meðal. Til þess að þetta megi gerast þarf að leika þetta á svokallaðan klassískan gítar og þá er vandinn sá, að láta laglínuna njóta sín og krefst það nokkrar leikni á hljóðfærið ef vel á að vera.
Ég hef sett nokkra fingrasetningu við lögin, sem auðvitað má hafa á annan hátt, enda er hún mjög persónu bundin. Eins og áður segir eru flest lögin samin fyrir einsöng eða sem kórsöng og ber að hafa ljóðin í huga þegar leikið er svo að laglínan megi njóta sín sem best.
Lög þessi eru skrifuð á mörgum árum og hafa safnast saman í það sem sjá má í þessari bók. Góðvinur minn, Eyþór Þorláksson til margra ára kennari í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, hefur verið mér innan handar með ýmsar ráðleggingar að viðbættu því að hafa tölvusett þetta allt fyrir mig og er ég honum mjög þakklátur fyrir það.
Eiginkonu minni, Dóru Sigfúsdóttur er ég mjög þakklátur fyrir dygga aðstoð við ljóð og annað sem tengist þessu tómstundagamni mínu og ekki síst þolinmæði. Henni tileinka ég þesssa bók.
Skrifað í september 2008. Trausti Thorberg